Fara í efni

Hvað er auðlesið mál?

 

Hvað er auðlesið mál?

Auðlesið mál er íslenska sem hefur verið einfölduð á skipulegan hátt:

  • Orðaforði: Einföld orð sem flestir þekkja og skilja.
  • Setningagerð og málfræði: Stuttar, beinar setningar og einföld málfræðileg uppbygging.
  • Bakgrunnsþekking: Auðlesið mál gerir ekki sömu kröfu um þekkingu á heiminum og almennir textar.
  • Framsetning: Textinn er settur fram á skýran hátt með fyrirsögnum og myndrænu efni þegar við á.

Auðlesið mál er ekki einungis einföldun heldur mikilvægt aðgengistæki. Það tryggir að einstaklingar með lestrar- eða lesskilningsörðugleika hafi sama aðgang að upplýsingum og aðrir. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) leggur áherslu á að tryggja rétt fatlaðra til að fá upplýsingar á máli sem þeir skilja. Með auðlesnu máli stuðlum við að jöfnum tækifærum og sjálfstæði allra.

Fyrir hverja er auðlesið mál?

Auðlesið mál er fyrir öll sem eiga erfitt með að skilja almenna eða fræðilega texta á íslensku. Í víðum skilningi getur auðlesið mál því verið fyrir okkur öll. Enginn er sérfræðingur í öllu og þegar við förum út fyrir okkar svið gæti auðlesið mál komið okkur að gagni. Það er þó aldrei hægt að taka mið af þörfum allra og því þarf að hugsa texta út frá ætluðum lesendahópi.

Auðlesið mál er fyrst og fremst fyrir þau sem vegna fötlunar sinnar eiga varanlega erfitt með að lesa og skilja þá texta sem við þurfum til að lifa sjálfstæðu lífi og njóta réttinda okkar til fulls. Sá hópur getur ekki nýtt sér önnur bjargráð upp á eigin spýtur svo sem texta á öðrum tungumálum, þýðingarforrit, orðabækur og slíkt til þess að fóta sig í veruleikanum. Þess vegna verður auðlesið mál alltaf að taka mið af þeim og þeirra þörfum umfram allt annað.

Auðlesið mál getur þó gagnast fleirum. Til dæmis:

  • Óvönum lesendum, eins og börnum sem eru að læra að lesa, eða þeim sem eru að tileinka sér nýja lestrarfærni.
  • Innflytjendum og fólki sem er að læra íslensku sem annað mál. Einfaldir textar með grunnorðaforða auðvelda þeim að skilja og tileinka sér efnið.
  • Þeim sem tímabundið eiga erfitt með lesskilning, t.d. vegna álags eða veikinda.