-
Þú átt rétt á upplýsingum á máli sem þú skilur!
Orðabanki
Dæmi um orð
Vald-efling þýðir að gefa meiri völd.
Vald-efling þýðir að færa valdið til fólks sem hefur lítil völd.
Vald-efling styrkir fólk.
Það er oft talað um vald-eflingu fatlaðs fólks.
Þá fær fatlað fólk til dæmis að stjórna meira í eigin lífi.
Trans er notað um fólk sem upplifir sig ekki af því kyni
sem fólkið var sagt vera þegar það fæddist.
Þegar við fæðumst segir fólk:
„Hér er fæddur lítill drengur“
eða „hér er fædd lítil stúlka“.
Trans fólk upplifir að kynið sem þau voru sögð vera er ekki rétt.
Trans kona:
er kona sem var sögð vera strákur þegar hún fæddist.
Trans karl:
er karlmaður sem var sagður vera stúlka þegar hann fæddist.
Trans fólk er hinsegin fólk.
Þetta er fáni trans samfélagsins:

Skilaboð þýðir eitthvað sem fólk vill segja við eina aðra manneskju eða margar. Skilaboð eru oftast notuð þegar fólk er ekki á sama stað.
Fólk getur skrifað skilaboð á blað eða sent tölvupóst. Fólk sendir líka skilaboð í SMS og á samskipta-miðlum. Það geta líka verið hljóð-skilaboð eða myndband.
Og stundum réttir manneskja okkur skilaboð frá einhverjum öðrum.
Skilaboð geta verið venjuleg og þau geta verið mjög mikilvæg. Þau geta verið auðskilin eða flókin.
Og skilaboð geta bæði verið falleg og ljót, þau geta gert okkur glöð og þau geta sært okkur.
Sum skilaboð er hægt að sýna öðrum. Það þýðir að margar manneskjur geta séð og lesið skilaboð sem eiga kannski að vera leyndarmál.
Stundum notum við orðið skilaboð um eitthvað sem fólk segir ekki með orðum.
Til dæmis getur manneskja horft á aðra með einhvern svip. Þó manneskjan noti engin orð er hægt að segja að þessi svipur sendi skilaboð.
Fyrirtæki og byggingar eru oft ekki með gott aðgengi fyrir fólk sem á erfitt með að labba eða notar hjólastól. Og snjó er mokað af götunum og settur ofan á gangstéttir svo ekkert fólk getur notað þær.
Þetta eru skilaboð um að fatlað fólk þurfi ekki að komast um.
Ofbeldi er þegar einhver meiðir okkur eða lætur okkur líða illa.
Allt ofbeldi er bannað.
Það má ekki meiða annað fólk og enginn má meiða okkur.
Líkamlegt ofbeldi er þegar einhver meiðir líkamann okkar.
Kynferðislegt ofbeldi er þegar einhver neyðir okkur
til að gera eitthvað kynferðislegt.
Til dæmis kyssir okkur eða snertir án þess að hafa leyfi frá okkur.
Andlegt ofbeldi er þegar einhver lætur okkur líða illa,
lætur okkur vera hrædd eða lætur okkur skammast okkar.
Ef þú heldur að þú verðir fyrir ofbeldi
skaltu tala við einhvern sem þú treystir.
Það eru til samtök sem hjálpa þeim sem verða fyrir ofbeldi.
Til dæmis Stígamót, Bjarkarhlíð og Kvenna-athvarfið.
Ef við erum hrædd eða í hættu skulum við hringja í neyðarlínuna í síma 112.